lørdag den 27. oktober 2007

já þá er að láta allt fjúka.... vandamálið með mig og blog er að ég veigra mér við að skrifa af því að það tekur allt of langan tíma þar sem ég þarf að yfirvega hverja setningu vel og vandlega áður en ég skrifa hana.
Í dag héldum við formlega upp á 3. ára afmælið hennar AÍ. Eftir mikla baráttu inn á baði fyrir framan spegilinn, kom ég henni í þann kjól sem ég vildi hafa hana í (ef hún mætti ráða væri hún alltaf í buxum) og fékk að setja í hana tíkó (sem er mjög merkilegt því hingað til hefur hún þverneitað að vera með hár eins og Lína Langsokkur). Afmælið gekk eins og í sögu, AÍ var dáldið feiminn eins og venjulega þegar fólk sýnir henni meiri athygli en hún er vön- en var óskaplega glöð með allar gjafirnar, um leið og allir voru farnir, og hún gat farið að leika sér. Hún fékk t.d. eins konar perlur sem maður þarf ekki að hita til að haldist saman. Perlurnar eru frekar litlar og erfiðar, og í því sem AÍ var að prófa þær í fyrsta skiptið heyrði ég nýjasta frasann hennar.................. fyrst heyri ég nokkuð MARGAR perlur detta í gólfið og svo heyrist frá þeirri stuttu: "for helvede, for helvede, for helvede"!!!!! Veit ekki hvaðan barnið hefur þetta, allavega ekki frá mömmu sinni, heheh:)
Auður Ísold er að mörgu leiti sérstakt barn. Hún er skýr og skörp, taldi upp á 20 á tveggja ára afmælinu sínu, talar mikið og rétt og unir sér mjög vel. En hún er jafnframt þrjóskari en allt sem þrjóskt er og kom það snemma í ljós. T.d. kastaði hún upp á hverju miðvikudagskvöldi í heilt ár þegar mamman fór í saumaklúbb og hún var skilinn eftir hjá pabba sínum (þ.e. grenjaði þar til hún kastaði upp), hún fer ekki að sofa á kanínu (n.b. kanína hefur týnst tvisvar fyrir utan heimilið og í bæði skiptið hefur endað með að við höfum farið út að leita og sem betur fer fundið), hún neitar að nota klósett eða kopp, þótt hún finni mætavel hvenær hún þarf á klóið, og getur haldið í sér í 8 tíma...... áður en hún biður um bleyju. Hún harðneitar að láta greiða sér og það er langt síðan ég hætti að kaupa á hana föt án þess að hafa hana með í för (henni finnst mamma sín nefnilega hafa frekar lélegan fatasmekk). En þrátt fyrir þessa þrjósku er hún yndislegasta, fallegasta og skemmtilegasta stelpa í heimi.
Ég verð þó að viðurkenna að ég er ansi fegin að það eru allavega 8 ár þar til hún kemst á hinn skemmtilega unglingaaldur. Ég vona svo sannarlega að hún verði búin að læra að hafa stjórn á þrjósku sinni þegar þar að kemur.

kveðja Védís, hin kvíðafulla móðir.

onsdag den 24. oktober 2007

Afmæli

Auður Ísold er 3 ára í dag!

Fékk dúkkuvagn frá foreldrunum og bróður sínum i morgun. Hún tekur svo á móti deildinni sinni af leikskólanum eftir klukkutíma. Hin eginlega afmælisveisla verður svo haldin á laugardaginn. Búist er við hátt í 40 manns. Vona bara að það verði þokkalegt veður svo hægt verði að vera eitthvað úti við.

Þórir

lørdag den 13. oktober 2007

Í sambandi

Finally, Endelig, loksins!

Án internets i einn og hálfan mánuð er ekki auðvelt. Fengum loks tenginguna til að virka á fimmtudaginn þegar við fengum tæknimann frá TDC sem komst fljótlega að því að mannleg mistök þeirra olli þessi skelfilega sambandsleysi. Internetbiðinni er hægt að skipta í tvö tímabil.
  1. Það tekur mánuð frá því að maður pantar internet frá Cybercity og etableringsdagurinn rennur upp.
  2. Hálfan mánuð tók að finna út hvort þetta væru TDC mistök eða Cybercity mistök og lagfæra.

Taka skal fram að heimasíminn er ekki kominn, þar sem Cybercity fokkaði upp pöntuninni og gaf okkur bara aðgang að internetinu. Er þó búinn að leiðrétta það og síminn kemur i næstu viku, +45-35148590.

Sjónvarpið fengum við byrjun mánaðarins. Viasat-mottakara til bráðabirgða vegna þess að biðtíminn hjá TDC, til að koma og draga kabal i húsið, er 5-6 manuðir. Eftir 3 vikna búsetu fengum við ruslatunnur. Þær voru tæmdar í fyrsta sinn á fimmtudaginn. Lyftan er ekki komin í gagnið einnig vegna TDC. Þeir þurfa nefnilega að setja upp einhvern neyðarsíma í lyftuna og það tekur sinn tima.

Annars er þetta afskaplega fín íbúð, og öllum líður vel. Erum búin að fá nokkar heimsóknir, María fyrst og svo tengdó í síðustu viku.

Þórir