onsdag den 28. november 2007

Hætt á bleyju

Það kom loks að því að dóttir mín hætti á dag-bleyjunni. Fyrir rúmlega mánuði síðan var ákveðið að setja smá pressu og verðlauna hana ef hún gerði í klósettið. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, sleikipinni í hvert skipti. Skemmst er frá því að segja að sleikipinnarnir voru ekki hreyfðir í 3 vikur (segir dálitið um þrjósku dóttur minnar). Það var ekki fyrr en síðasta laugardag að hún tók upp á því að byrja og strax fyrsta daginn fékk hún 3 sleikipinna og jafnmarga daginn eftir. Auðvitað var ekki hægt að neita Fjalari um sleikjó og fékk hann því í hvert sinn sem systir hann gerði í klósettið, einnig sleikjó. Syni mínum fannst þetta fyrirkomulag svo öldungis glæsilegt að hann var farinn að minna systur sína á það að það margborgaði sig að pissa nogu ands... oft. Það var orðið svo langt gengið að hvert skipti sem Fjalar þurfti að pissa fullvissaði hann systur sína um það að hún þyrfti líka að pissa svo hægt væri að verðlauna þau bæði.
Sleikipinnarnir eru búnir og dóttir mín er ennþá bleyjulaus. Við getum því með góðri samvisku sagt að bleyjuskipti á heimilinu heyri sögunni til.

Þórir

tirsdag den 20. november 2007

Nýjir skór

Ég er farinn að spila innanhúsfótbolta á hverju mánudagskvöldi. Eftir að hafa fengið nóg af að spila fótbolta í körfuboltaskónum mínum keypti ég mér alvöru innanhúsfótboltaskó í gær. Fjalar Hrafn er mikill áhugamaður um fótboltaskó og var því heldur en ekki hrifinn af nýju skónum, og ekki skemmdi það fyrir að þeir eru að hluta til gyltir. Þegar við hjóluðum svo í leikskólann í morgun undraði hann sig á því að ég væri ekki í nýju fótboltaskónum og spurði hvers vegna svo væri. Ég útskýrði fyrir honum eins og var, að þetta væru einungis inniskór. Þá ráðlagði hann mér að hafa þá í poka með á morgun til að geta sýnt þá öllum sem ég þekki. Það er nefnilega mjög mikilvægt að allir sjái hversu flotta innanhúsfótboltaskó pabbi hefur keypt sér.

Þórir

søndag den 11. november 2007

Musik

Sá Arcade Fire í KB-Hallen á miðvikudagskvöldið. Alger snilld! Ekki er hægt að segja það sama um upphitunarbandið, Wild Light. Hreinn viðbjóður!
Framboð á tónleikum í Kaupmannahöfn i ár hefur verið ótrúlegt og hef ég þurft að velja og hafna. Tónleikar sem ég hef ákveðið að fara á, frá deginum í dag eru: Jakobínarína í kvöld (er á gestalista :-)), Beirút eftir viku, The New Pornographers 27. nóv og Band of Horses og The Cure eftir áramót. Dæmi um þá tónleika sem ég fer ekki á: Editors, Fiery Furnaces, Gogol Bordello og Mugison, allir í nóvember.

Þórir

torsdag den 8. november 2007

Villibörn......

.... má með sanni kalla börnin mín. Þau neita að láta tannbursta sig, greiða sér, þvo sér og klippa á sér neglurnar. Ef þau fengju sínum vilja framgengt þá myndu þau líta út eins og tröllabörn. Ég hef því stundum brugðið á það ráð að greiða þeim, þvo og klippa á þeim neglurnar meðan þau sofa, og það hefur yfirleitt ekki haft neina eftirmála............ fyrr en síðast þegar ég klippti á þeim neglurnar meðan þau sváfu. Stuttu eftir að þau vöknuðu kom Fjalar alveg öskureiður til mín...... "mamma. du har klippet mine kløer" (bein þýðing: mamma, þú ert búin að klippa KLÆRNAR mínar").

Védís

tirsdag den 6. november 2007

Jólin koma.......

...... eftir heilan 1 1/2 mánuð. Svo nú er bara að einbeita sér að því að loka augunum fyrir alls kyns auglýsingaráreiti þangað til 1. des svo maður verði ekki algjörlega ónæmur fyrir öllu fallega jóladótinu þegar jólin koma loksins.

ég var annars að kaupa mér gedveikan kjól í genbrug. Hann er svartur, grár og silfurlitaður..... ohhh, ég stóðst ekki mátið. Genbrug er málið.

Hilsen,
Védís