lørdag den 28. juli 2007

Ótrúleg lítil skotta

Fjalari Hrafni og Auði Ísold finnst gaman að slást og nota til þess fantabrögð sem maður hefði ekki getað ímyndað sér að 2 og 4 ára börn kynnu. T.d. að hoppa ofan á bakið á hvort öðru eins og maður sér í wrestling keppnunum og grípa hvort annað hálstaki. Þegar foreldrunum ofbýður fantaskapurinn þá skarast þau í leikinn með ýmsum ráðum. Rétt í þessu gengu þau fram af mér og ég sagði eitthvað á þessa leið....."hættiði þessu, börn.... þetta er stórhættulegt! Ég vil ekki sjá þetta hér á þessu heimili!".......... þá sagði Auður Ísold í mesta sakleysi; "en mamma, gerðu þá bara svona" og hélt fyrir augun á sér!!! Ég átti s.s. bara að halda fyrir augun ef ég vildi ekki sjá aðfarirnar hjá þeim. Hvað getur maður sagt þegar maður fær svona einlægt svar?

Védís

torsdag den 26. juli 2007

Tilviljun eða örlög....

.... hvort sem það er þá gerðist ótrúlega skrítinn hlutur í dag. Jú, þannig er mál með vexti að hann Gunni félagi úr matvælafræðinni, sem býr hérna í Köben, hafði samband í dag í gegnum msn-ið og sagðist hafa verið að skoða bloggið mitt í fyrsta skiptið rétt í þessu og ákveðið að hafa samband.... sem er kannski ekki til frásögu færandi nema hvað ég var með msn gluggann hans opinn og var að skoða hans blogg í fyrsta skiptið! Og notabene..... ég hef ekki heyrt í né séð Gunna í 3 ÁR!!!!!! og við veljum sama dag og sama tíma til að forvitnast um hvort annað!! Er þetta ekki aðeins of mikil tilviljun?

Védís

tirsdag den 24. juli 2007

Vikaren

Fór í bíó áðan með stelpunum á afskaplega skrítna mynd, danska mynd sem heitir vikaren og er um geimveru sem kemur frá plánetu þar sem engin ást fyrirfinnst og fer að vinna sem afleysingakennari í 6.B....... og þá fara að gerast skrítnir hlutir. Jahérnahér, hvernig ætli leikstjórar og höfundar svona mynda hugsi svona dagsdaglega. Allavega.... myndin fær kannski 1 1/2 stjörnu frá mér fyrir húmor og góðan leik.

nægtínægt,
Védís

Elín ljótufatameistari

Það var gaman í ljótufatapartýi..... jafnvel þótt ég hafi ekki átt vinninginn í ljótasta fatinu. Þann heiður átti nefnilega hún Elín vinkona og matarklúbbsfélagi..... hún var í þeim ógeðslegasta vibbakjól sem ég hef séð!
En talandi um þriðjudagsmatarklúbb - það er víst komin röðin að okkur og í tilefni rigningar og drulluveðurs hef ég ákveðið að hafa heitan chilirétt frá Mexíko og danskan bjór með:) vonandi fer sólin þá að sýna sig.
Adios i bili - kominn tími til að sækja 2 blauta grislinga og 1 aukagrisling:)
Védís

lørdag den 21. juli 2007

Ég er að fara í ljótufatapartý á eftir og hef af því tilefni fjárfest í þeim allra ljótasta kjól sem ég hef á ævinni séð. Hann er með ljósbláu, ljósfjólubláum, ljósbrúnu og hvítu blómamynstri, rykktum púffermum með axlarpúðum og plísseruðu pilsi! Ég hlakka svo til að sjá hvort einhverjum hefur tekist að finna ljótari föt en mér, hehhehehe:) Ég ætla líka að mæta með myndavélina og taka myndir af öllu ruglaða fólkinu sem er búið að eyða síðustu tveimur dögum í rauða kross búðum Kaupmannahafnar.

Af okkur er fínt að frétta. Við notuðum þennan laugardag í að fara á Þjóðmynjasafnið, www.nationalmusee.dk þar sem krakkarnir gátu kynnst gömlum tímum í gegnum leik. Veðurfræðingarnir okkar góðu keppast við að spá rigningu en veðrið er búið að vera udmærket!
Auður Ísold er rosalega dugleg leikskólastelpa..... hún nýtur sín vel og er farin að sofna kl. 8 á kvöldin..... yesss!

Set ljótufatamyndir inn bráðlega

Védís

onsdag den 18. juli 2007

Munurinn á Íslandi og Danmörk í hnotskurn

Á mánudaginn kl. 11 gerði ég mér ferð niður í Sendiráð á Norðurbryggju þar sem mig vantaði nýtt vegabréf. Í morgun kl. 11 lá svo nýja vegabréfið í póstkassanum mínum. Ferlið tók s.s. aðeins 2 daga, fyrst meðhöndlun umsóknarinnar hér í Köben, því næst útbúningur vegabréfsins á Íslandi og að lokum sendingin frá Íslandi til Kaupmannahafnar.

Ef ég hefði hins vegar verið að sækja um danskt vegabréf hefði ferlið án efa tekið lengri tíma. Fyrst hefði ég örugglega þurft að fara í passamyndatöku, því næst í heillanga biðröð til að geta sótt um vegabréfið..... svo af því að tölvukerfin hjá danska ríkinu virðast ekki vera samtengd þá hefði örugglega þurft að senda vegabréfið á milli stofnanna með póstinum fyrir mismunandi áritanir osfrv. Ferlið hefði án efa tekið amk. 3 vikur, jafnvel lengri tíma af því að nú er lokað vegna sumarleyfa (því konsepti kynntist ég fyrst þegar ég flutti hingað)!

En allavega, ég er komin með vegabréfið í hendurnar og geta byrjað að hlakka til Færeyjaferðarinnar:)

Védís

mandag den 16. juli 2007

Strandferð

Við hjóluðum niður á Amager Strand í gær...... sem er kannski ekkert nýnæmi nema hvað krakkakrílin hjóluðu sjálf alla leiðina niður á strönd, sem er dágóður spotti; 2,5 km. Á ströndinni var afskaplega þægilegur hiti og við nutum þess að vaða, skoða kræklinga, krabba og kúskeljar. Endað var með ís og svo fengu krakkarnir far í kristjaníuhjólinu góða ásamt hjólunum sínum...... ótrúlegt hvað hægt er að koma fyrir í svona hjólum. Skemmtilegur fjölskyldudagur í gær.

Védís

Gullkorn fjögurra ára barns

Síðasta föstudag átti FH erfitt með að festa svefn og var ástæðan fyrirhuguð afmælisveisla á laugardeginum. Drengurinn bylti sér og velti og kallaði oft á mömmu sína sem var orðin frekar pirruð, enda átti alltof mikið eftir að gera í afmælisundirbúningi. Eitt skiptið þegar mamman fór inn til að árétta það að nú yrði hann að sofna, sagði FH sitt besta gullkorn fram til þessa og eftirfarandi kemur hluti af okkar samræðum......
FH: "Mamma, ég vil ekki fá fleiri pakka!"
Mamman (mjög hissa): "Nú.... eigum við þá ekki að halda afmælisveisluna?"
FH: "Jújú, en ég vil ekki fá fleiri pakka"
Mamman (enn meira hissa): "Nú, en af hverju viltu ekki fá fleiri pakka?"
FH: "Jú sko, það er eiginlega ekki pláss fyrir meira dót í herberginu mínu, þess vegna vil ég ekki fá fleiri pakka"...... Hvaða 4 ára barn vill ekki fá pakka vegna plássleysis - ég er þrítug og finnst æðislegt að fá pakka!

Védís

torsdag den 12. juli 2007

Komin heim

Komum heim í gærdag. Börnin voru eins og englar i fluginu eins og þau hefðu ekki gert annað. Fjalar Hrafn vakti alla leiðina og dundaði sér við að spila við pabba sinn og horfa á sjónvarpið. Auður Ísold svaf hálfa leiðina enda fór hún seint að sofa kvöldið áður. Eftir 4 tíma stopp á kolliginu fór ég á tónleika með Clap Your Hands Say Yeah! Tónleikarnir fengu 3 af 6, ekki nógu gott. Þeir virtust vera eitthvað andlausir, búnir eflaust að vera á löngu tónleikaferðalagi. Annað voru nú tónleikarnir í síðustu viku með Modest Mouse sem fá 5 af 6.

Auður Isold mætti í fyrsta sinn á leikskólann nýja í morgun. Mamman fór með henni til halds og trausts en sú litla varð heldur súr þegar hún sá að móðir hennar ætlaði með í rútuna. Því hefur verið tekin sú ákvörðun að hún fari ein með rútunni í fyrramálið, eftir einungis einn dag í aðlögun. Hún er búin að bíða eftir þessum degi í marga mánuði.

Ætlum að halda upp á afmælið hans Fjalars á laugardagsmorguninn. Síðustu tvö ár hefur afmælið farið fram í 30 stiga hita úti í garði þar sem allir eru berir að ofan. Að þessu sinni verður afmælið þó haldið innandyra vegna veðurs.

Þórir

tirsdag den 3. juli 2007

Eitthvað nýtt

Ég keypti nýtt hjól handa Fjalari Hrafni í dag. Eins og komið hefur fram á dagbókinni var hjólinu hans, sem við keyptum í mars, stolið fyrir 3 vikum síðan. Ég, tryggingastærðfræðingurinn, fór í tryggingafélagið TopDanmark og fékk hjólið bætt og notaði bæturnar til að kaupa nýtt hjól. Er svo búinn að nota síðasta klukkutíma til að pússla því saman svo það verði tilbúið þegar hann kemur heim í næstu viku. Hef annars notað þessa einmanna daga til að vinna eins og mother******. Fór reyndar á tónleika í gærkveldi til að brjóta vinnudaginn aðeins upp. Store-Vega bauð upp á Modest Mouse. Í stuttu máli sagt: gargandi snilld! Tveir trommuleikarar, alger snilld!

Þórir